Close
Fjarðargata, Hafnarfjörður, Iceland , 200 13-15
558-5858

Las Colinas

Las Colinas er perlan meðal fjölmargra glæsilegra golfvalla á Alicante-svæðinu. Margverðlaunaður og í hávegum hafður meðal allra þeirra sem hann hafa spilað. Þá má nefna að völlurinn hefur verið notaður í evrópsku mótaröðinni, ekki að ófyrirsynju.

Um er að ræða golfvöll sem er par 71 og hannaður af Cabell B. Robinson, sem á heiðurinn af þekktum golfvöllum á borð við La Reserva í Sotogrande og Finca Cortesin á Costa del Sol á Spáni, svo einhverjir séu nefndir.

Völlurinn er til þess að gera nýr – hann var tekinn í notkun 2010 –liggur í hring í dalverpi og er umlukinn hæðum. Er sérstaklega lagt uppúr því af Robinson að völlurinn falli inn í landslagið. Hver hola sérstök. Þeir sem kunna spænsku vita að colinas þýðir hólar; völlurinn er langt í frá flatneskjulegur. Þeir sem spila Las Colinas taka eftir því að öll umhirða er til fyrirmyndar, niður í smæstu atriði þannig að unun er að fara þar um. Í klúbbhúsinu má finna góðan veitingastað og bar. Þar er að finna allt sem nöfnum tjáir að nefna og tengist golfiðkun – þetta nálgast að mega heita paradís golfarans og er erfitt er að stilla sig um að nota efsta stig lýsingarorða þegar reynt er að lýsa Las Colinas.
Fjölbreyttur gróður og landslag umlykja völlinn en einkennandi eru hólar, drifahvítar sandglompur og svo tjarnir og aðrar vatnshindranir.

 

Las Ramblas

Las Ramblas er sannarlega ævintýralegur völlur – annað hvort elska golfarar að hata völlinn eða elska hann skilyrðislaust. Sem þýðir þá einfaldlega það að þetta er völlur sem allir golfarar verða að reyna sig á. Í það minnsta einu sinni.

Um er að ræða völl sem vígður var 1991, er par 72, 5807 metra langur og staðsettur milli tveggja mikilla gljúfra í námunda við strönd Miðjarðarhafsins. Einsleitni er orð sem að manni ætti ekki einu sinni að detta í hug þegar þessi völlur er annars vegar. Brautir og flatir hver um sig eru einstakar. Öll umhirða og viðhald er þarna til fyrirmyndar.

Hönnuðurinn Pepe Gancendo hefur hlotið mikið lof fyrir mikla útsjónarsemi við útfærslu vallarins í þessu mikla landslagi, umhverfið er vaxið furutrjám og svo náttúrulegum vatnsfarvegum og niðurstaðan er óhjákvæmilega ákaflega krefjandi völlur. Á völdum stöðum hafa snjallir innfæddir sölumenn komið sér fyrir og selja golfkúlur í netpokum; nokkuð sem margir þiggja fegins hendi eftir að hafa mátt sjá á eftir kúlum sínum ofan í djúpa árfarvegi.

Hér skiptir öllu máli að vita hvað maður er að gera; leikskipulag þarf að vera á hreinu og svo náttúrlega getan til að slá þannig að skipulagið haldi. Lesandinn er líklega búinn að reikna það út að hér skiptir andlega hliðin, þessi sem gerir golfið að því sem það er, öllu máli: að halda haus. Á Las Ramblas munu golfarar komast að því úr hverju þeir eru gerðir. Að sigra völlinn er að sigra sjálfan sig.

Lo Romero

Lo Romero golfvöllurinn er tiltölulega nýr völlur en hann var opnaður árið 2008. Þetta er nýtískulegur völlur og í boði er, fyrir þá tæknivæddu, að hlaða niður á síma eða iPad sérstöku appi þar sem finna má greinargóðar lýsingar á vellinum og hverri holu fyrir sig.

Völlurinn er staðsettur í grennd við Costa Blanca Strandlengjuna og Costa Calida strendurnar. Hönnuðir eru þeir Jorge Gallén og Enric Soler, völlurinn er par 72, 6061 metrar að lengd. Þeir Gallén og Soler leggja uppúr því að kylfingarnir fái að reyna sem flestar kylfur í pokanum, og það gera þeir með úthugsaðri staðsetningu á fjölmörgum glompum vallarins sem og tjörnum. Völlurinn er ákaflega fallegur og við brautirnar má sjá appelsínu- og sítrónutré.

Fyrri níu holurnar taka mjög mið af landslaginu en seinni holurnar eru hins vegar „hannaðar“; eða manngerðar. Þar sem Lo Romero er staðsettur þetta nærri hafi má gera ráð fyrir því að hafgola geti haft áhrif á leik.

Þekktasta hola vallarins og þó víðar væri leitað, einkennisholan sjálf, er sú 18. Brautin býður uppá ýmsar hættur, runna og glompur og og allan tímann blasir við áskorunin sjálf; flötin sem er eyja í tjörn. 356 metrar af gulum teig en 302 af þeim rauða. Þarna þurfa golfarar að hafa hausinn í lagi. Þeir högglengri og djarfari eiga möguleika á að ná inná flöt í tveimur höggum en þeir sem eru styttri gera best í því að leggja upp í öðru höggi og eiga þá stutt högg að holu, yfir vatnið.

La Serena

La Serena-golfvöllurinn er hannaður af Manuel Piñero, þeim kunna golfara sem í tvígang spilaði með liði Evrópu í Rydernum. 

Þó völlurinn allur sé tiltölulega flatur, og ekki mjög langur þá ættu menn að varast þá hugmynd að um sé að ræða léttan völl. Vatnshindranir koma við sögu á 16 af 18 brautum vallarins auk þess sem staðbundnir vindar á vestanverðu Miðjarðarhafssvæðinu kunna að setja strik í reikninginn. En, ef kylfingarnir ná að höndla þessa þætti gætu þeir skorað ágætlega. Hér snýst allt um að vera nákvæmur og á boltanum. Völlurinn vinsæll meðal heimamanna og hefur verið lengi og hafa verið haldin mörg mót á La Serena í gegnum tíðina.

La Serena er par 72, lengd vallarins er frá gulum teigum 5884 en af rauðum 4923. Völlurinn var vígður árið 2006. Eins og áður sagði er völlurinn flatur en fallegur og setja pálmatré mark sitt á útsýnið.

Staðsetning vallarins er í grennd við Mar Menor-ströndina, byggingar sem sjá má í grennd vallarins eru í skemmtilegum spænskum arkítektúr, þar má til dæmis sjá 500 ára gamlan varðturn í kastalastíl, sérstaklega byggður og hannaður til að hafa auga með sjóræningjum sem áttu það til að herja á íbúa á öldum áður. Klúbbhúsið er sérlega fínt, stórt og þar má finna alla helstu þjónustu sem snýr að þörfum kylfinga.

La Finca

La Finca er bráðskemmtilegur golfvöllur. Fremur nýlegur, völlurinn var vígður árið 2002 og er mjög „hannaður“, ef svo má að orði komast – útpældur. Það er hinn þekkti spánski golfvallahönnuður Pepe Gancedo sem á heiðurinn af því og hann fékk nokkuð frjálsar hendur við það verk. 

Völlurinn er par 72 en telst alllangur eða 6,394 metrar miðað við gula teiga en 5.411 af rauðum, breiðar brautir eru einkennandi en þarna eru margar vatnstorfærur sem gera það sérlega spennandi að spila La Finca. Ekki er vitlaust að hafa aukagolfkúlur í pokanum þegar La Finca er spilaður. Golfarar þurfa að útfæra sinn leik vel og ráða yfir ólíkum höggum ef þeir ætla að skora vel. Þeir sem kunna að sveifla drævernum munu verða einkar ánægðir með La Finca.

Flatirnar eru sérlega skemmtilega útfærðar, stórar og hraðar. Allar holurnar eða brautirnar, hafa sín sérkenni en sérstaklega eftirtektarverðar eru 5. hola en þar er flötin á eyju og sú 6. sem þykja alveg einstaklega fallegar, umhverfið er einstakt en fossar og lækir setja mark sitt á það.